Maríukirkja

 • Forsíða
 • English
 • Tengingar
 • Stjarna Hafsins
 • Messutímar
 • Prédikanir
 • Myndir
 • Fyrir börn
 • Faðir Róbert Bradshaw
 • Séra Lambert

  Kaþólsk trú

 • Ritningarlestrar
 • Guðleg miskunn
 • Brautryðjendur
 • Medjugorje
 • Rósakransbænin
 • Móðir hins eilífa hjálpræðis
 • Verndardýrlingur Íslands
 • Móðir Teresa
 • Dýrlingur dagsins
 • Almennar bænir
 • Heilræði
 • Trúfræðslurit Kirkjunnar
 • Humanae Vitae
 • Evangelium Vitae
 • Dominus Iesus
 • Fróðleikur
 • Jóhannes Páll II

 • Lífsvernd


 • Trúarjátning Guðs lýðs

  Hátíðleg trúaryfirlýsing Páls páfa VI
  þá er helgiári trúarinnar lauk
  30. júní 1968
  í Péturskirkjunni  Með þessari hátíðlegu messufórn ljúkum vér þessu helgihaldsári trúarinnar,
  í minningu þess að 1900 ár eru liðin síðan hinir heilögu postular Pétur og
  Páll liðu píslarvættisdauða. Vér tileinkuðum árið til minningar um hina
  heilögu postula til þess að vér bærum öllum vitni þess, að vér erum tryggir
  þeim boðskap, sem kirkjunni var falinn1 og þeir hafa flutt oss og falið oss
  á hendur, og einnig til þess að vér gætum styrkt löngun vora að lifa
  samkvæmt þeim boðskap nú við þær aðstæður, sem kirkjan er í á þessum tímum,
  á pílagrímsferð sinni mitt á meðal alls í heiminum.

  Vér álítum það skyldu vora að þakka opinberlega öllum þeim, sem urðu við
  beiðni vorri, með því að fullkomna ár þetta svo fagurlega, með því að halda
  sér við Guðsorð og með endurnýjun trúarjátningarinnar, sem hefur átt sér
  stað víðsvegar innan kirkjunnar, og einnig með vitnisburði kristins
  lífernis. Bræðrum vorum biskupunum sérstaklega, og öllum hinum trúuðu innan
  kaþólsku kirkjunnar, viljum vér votta þakklæti vort og veita blessun vora.
  (…)

  Dag þennan, sem valinn hefur verið til þess að ljúka trúarárinu, á
  messudegi hinna heilögu postula Péturs og Páls, er það vilji vor, að bera
  fram trúaryfirlýsingu hinum lifanda Guði til lotningar. Eins og fyrrum við
  Cæsareu Filippí, er Pétur postuli talaði fyrir munn hinna tólf, og bar fram
  sanna trúarjátningu, sem náði lengra en mannleg hyggja, - um Krist, sem Son
  hins lifanda Guðs, - þannig í dag hefir auðmjúkur arftaki Péturs, hirðir
  yfir allri kirkjunni, upp rödd sína til þess að vitna staðfastlega fyrir
  hönd alls lýðs Guðs, um hinn guðdómlega sannleika, sem kirkjunni hefir
  verið falið að boða öllum þjóðum.

  Vér höfum óskað eftir því, að trúaryfirlýsing vor sé mjög fyllileg og skýr,
  til þess að hún mæti vel þörfinni á ljósi því, sem svo margir hinna trúuðu
  finna að skortir, og svo öllum sannleiksleitendum í heiminum, hvaða
  trúarbrögðum sem þeir kunna að heyra til.

  Vér mælum nú trúaryfirlýsingu þessa af munni fram í fullu andlegu samfélagi
  við yður alla, elskulegu bræður og synir. Sé hún Háheilögum Guði til dýrðar
  og Drottni vorum Jesú Kristi, um leið og vér treystum á hjálp hinnar
  Heilögu meyjar Maríu og Heilagra postula Péturs og Páls, til gagns og
  uppbyggingar kirkjunni, í nafni allra hirða kirkjunnar og allra hinna
  trúuðu.

  TRÚARYFIRLÝSING

  Vér trúum á einn Guð eingöngu, Föður, Son og Heilagan Anda, Skapara alls
  hins sýnilega, sem veraldarinnar, sem lífsferill vor liggur um, skapara
  þeirra vera, sem einvörðungu eru andlegar og nefnast einnig englar3 og
  skapara andlegrar og ódauðlegrar sálar í hverjum manni.

  Vér trúum að þessi eini Guð sé fullkomlega einstakur í hinu Háheilaga eðli
  sínu og sömuleiðis í öllum fullkomleika sínum, almætti sínu, fullkominni
  þekkingu sinni, forsjón sinni, vilja sínum og kærleika. Hann er sá sem er,
  eins og hann opinberaði sig Móse4 og hann er kærleikur eins og Jóhannes
  postuli kennir oss5, svo að þessi tvö nöfn, vera og kærleikur, lýsa
  ómælilega yfir hinum sama guðdómlega veruleika hans, sem vildi opinbera sig
  oss og “sem dvelur í ljósi, sem vér náum eigi til"6, er í sjálfum sér
  hafinn yfir sérhvert nafn, sérhvern hlut og yfir sérhvern skilning og
  skapaða vitsmuni. Guð einn getur gefið oss rétta og fullkomna þekkingu á
  raunveruleika þessum, með því að opinbera sig sem Föður, Son og Heilagan
  Anda, en af náð erum vér kallaðir til hans í eilífu lífi, hér á jörðinni í
  huliðsleika trúarinnar og í ljósi eilífu að lífi loknu hér í heimi. Samband
  það, sem gerir hinar þrjár persónur það, sem þær að eilífu eru, en þær eru
  hver um sig hin sama guðlega vera, er hið alsæla innra líf hins þríheilaga
  Guðs, og er það langt ofar öllum mannlegum skilningi vorum7. Vér þökkum,
  samt sem áður, hinni guðdómlegu gæsku fyrir það, að þeir eru margir, sem
  trúa og geta borið vitni með oss fyrir mönnunum, um Guð hinn eina, jafnvel
  þótt þeir þekki eigi til leyndardóms hinnar Alheilögu Þrenningu.

  Vér trúum því á Föðurinn, sem eilíflega getur Soninn, á Soninn, orð Guðs,
  sem er eilíflega getinn, á Heilagan Anda, hina ósköpuðu persónu, sem út
  gengur frá Föðurnum og Syninum sem eilífur kærleikur þeirra. Það er því
  þannig, að í hinum þremur guðlegu persónum, sem eru að öllu jafn eilífar,
  og jafnar í öllu, coaeternae sibi et coaequales8, er líf Guðs hins eina og
  alsæla í hverri þeirra fullkomið og algert samkvæmt þeim fullkomleika og
  dýrð, sem heyrir til óskapaðri veru, og “einingin á ætíð að vera tilbeðin í
  Þrenningunni og Þrenningin í einingunni"9.

  Vér trúum á Drottin vorn Jesúm Krist, sem er Sonur Guðs. Hann er eilífa
  orðið, fæddur af Föðurnum fyrir allar aldir, og sameðlis Föðurnum,
  homoousios to Patri10, sem og hefur gert alla hluti. Fyrir kraft Heilags
  Anda íklæddist hann holdi af Maríu mey og gerðist maður. Var hann því jafn
  Föðurnum samkvæmt guðdómi sínum og Föðurnum lægri samkvæmt manneðli sínu11,
  en þó var hann einn eigi vegna þess að eðlin hefðu blandast, heldur vegna
  einingar persónu hans12.

  Hann dvaldi meðal vor fullur náðar og sannleika. Hann boðaði og stofnaði
  konungsríki Guðs og kynnti oss Föðurinn í sér. Hann gaf oss nýtt boðorð
  sitt, að elska hvert annað eins og hann elskaði oss. Hann kenndi oss veg
  hjálpræðisins með sæluboðum guðspjallanna: Fátækt í anda, lítillæti, að
  bera þrautir vorar með þolinmæði, þyrsta eftir réttlætinu, miskunnsemi,
  hreinlyndi, friðarvilja og að þola ofsóknir fyrir réttlætissakir. Hann var
  píndur undir valdi Pontíusar Pílatusar, hann var Lamb Guðs sem hafði tekið
  á herðar sér syndir heimsins og hann dó vor vegna á krossinum og frelsaði
  oss þannig með endurlausnarblóði sínu. Hann var grafinn og reis upp af eign
  mætti á þriðja degi. Með upprisu sinni hóf hann oss upp til að vera
  þátttakendur í hinu guðdómlega lífi, sem er náðarlíf. Hann steig upp til
  himna og hann mun koma aftur en þá í dýrð til þess að dæma lifendur og
  dauða, sérhvern samkvæmt sínum verðleikum. Þeir sem hafa tekið á móti
  kærleika Guðs og miskunn, þiggja líf að launum, en þeir sem hafa daufheyrst
  við kærleika Guðs og miskunn, allt til hinstu stundar, fara í eld þann er
  aldrei slokknar.

  Og á ríki hans mun enginn endir verða.

  Vér trúum á hinn Heilaga Anda sem er Drottinn og gjafari lífsins, sem er
  dýrkaður og vegsamaður ásamt Föðurnum og Syninum. Hann talaði til vor fyrir
  munn spámannanna, hann var sendur af Kristi, eftir upprisu hans og
  uppstiginn til Föðurins. Hann er leiðarljós kirkjunnar, líf, vörn og
  leiðbeiningar, og hann hreinsar meðlimi kirkjunnar ef þeir sniðganga eigi
  náð hans. Áhrif hans sem ná allt til innstu róta sálarinnar, gerir manninum
  megnugt að verða við kalli Jesú: Verið fullkomin eins og yðar himneski
  Faðir er fullkominn (Mt. 5:48).

  Vér trúum að María, sem alla tíð var mey, sé móðir Orðsins, sem holdgaðist,
  Guðs vors og Frelsara, Jesú Krists13 og vegna þess að hún var valin til
  þessa svo sérstaklega, að hún hafi verið endurleyst á tignari hátt, með
  tilliti til verðleika Sonar hennar14, að hún hafi verið varðveitt frá flekk
  erfðasyndarinnar15 og búið yfir meiri fyllingu náðarinnar, heldur en allar
  aðrar skapaðar verur16

  Þar sem hún var nánara tengd, og það á órjúfanlegan hátt, leyndardómum
  holdtekjunnar og endurlausnarinnar17 var hún hin alsæla mær, hin óflekkaða,
  hafin upp til himna með líkama og sál að jarðnesku lífi sínu loknu og býr í
  himneskri dýrð18 og gerð lík sínum upprisna Syni, sem undarfari hlutskiptis
  allra réttlátra manna og vér trúum að hin Heilaga Guðsmóður, hin nýja Eva,
  móðir kirkjunnar19 haldi áfram á himnum móðurlegu verkefni sínu varðandi
  meðlimi þá sem eru í samfélagi við Krist; að hún vinni með við fæðingu og
  vöxt hins yfirnáttúrulega guðdómlega lífs í sálum hinna endurleystu20.

  Vér trúum að allir hafi syndgað í Adam, en það þýðir að það fyrsta brot er
  hann drýgði hafi valdið því að mannlegt eðli, sem sameiginlegt er öllum
  mönnum, hafi fallið í það horf og ástand, sem ber með sér afleiðingar þess
  afbrots, en að ástand þetta sé eigi hið sama er frumforeldrar voru bjuggu
  fyrst við, þar eð þau voru heilög og réttlát og þekkti mannkynið hvorki
  illsku né dauða. Það er því í þessum skilningi að allir menn eru fæddir í
  synd og erfa það ástand, að mannlegt eðli þannig falli í ástand það, er
  svipti það náðinni sem það naut, er skert hvað varðar eðlilegan mátt þess
  og undirorpið yfirráðum dauðans. Vér álítum því eins og kirkjuþingið í
  Trent gerði, að erfðasyndin berist frá manni til manns með mannlegu eðli,
  “eigi með eftirdæmi heldur með viðkomu mannkynsins", og erfðasyndin “er því
  öllum eiginleg"21.

  Vér trúum því að Jesús Kristur, Drottinn vor, hafi með krossfórninni leyst
  oss undan erfðasyndinni og öllum persónulegum syndum, sem hver og einn af
  oss höfum drýgt, þannig að eins og postulinn segir: “Þar sem syndin óð uppi
  flóði náðin yfir"22.

  Vér trúum á eina skírn sem Drottinn vor Jesús Kristur stofnaði til, til
  eftirgjafar syndanna. Skíra á jafnvel smábörn er enn hafa eigi getað drýgt
  persónulega synd og þetta á að gera til þess að þau geti verið endurfædd
  “af vatni og Heilögum Anda" til náðarlífs í Kristi Jesú23.

  Vér trúum á eina heilaga, kaþólska og postullega kirkju sem Jesús Kristur
  reisti á kletti þeim, sem er Pétur. Hún er hin leyndardómsfulli líkami
  Krists, en þó um leið bæði sýnileg stofnun búin skipulegri helgistjórn og
  andlegt samfélag; kirkjan hér á jörð, lýður Guðs hér á jörð, sem er á leið
  sinni til Drottins, og kirkjan aðnjótandi allrar blessunar Guðs; frjóangi
  og frumgróði Guðsríkis, en í henni er verki og þjáningum endurlausnarinnar
  haldið áfram fyrir mennina í gegnum aldanna raðir og hún horfir fram á við
  til dýrðarinnar24. Drottinn Jesús mótar kirkju sína stundlega með
  sakramentunum, þannig að hún nær alveg tilgangi sínum út yfir allan tíma
  vegna gnægðar Hans25. Með sakramentunum gerir kirkjan meðlimi sína
  þátttakendur í leyndardómi dauða og upprisu Krists og í náð Heilags Anda,
  sem veitir henni líf og atorku26. Hún er þess vegna heilög þótt syndugir
  menn séu innan vébanda hennar, því að sjálf býr hún eigi yfir öðru lífi en
  lífi náðarinnar: Meðlimir hennar helgast ef þeir lifa lífi hennar en snúast
  til syndar og vesældar ef þeir hverfa frá lífi hennar, en það er einmitt
  slíkt fráhvarf sem veldur því að heilagleiki hennar fær eigi að ljóma. Því
  þjáist hún og gerir yfirbót fyrir afbrot þessi, en hún hefur máttinn til
  þess að lækna og græða börn sín fyrir blóð Krists og náðargjöf Heilags
  Anda.

  Kirkjan er erfingi alls þess er Guð lofaði, andleg dóttir Abrahams fyrir
  Ísrael og geymir hún og gætir með móðurlegri umhyggju ritningar Ísraels og
  sýnir hún ættfeðrum og spámönnum þess, dýpstu lotningu; grundvölluð á
  postulunum og hefur hún um aldaraðir látið áfram af hendi ævarandi kenningu
  þeirra og völd þeirra sem hirða í arftaka Péturs og biskupa þeirra er í
  sambandi eru við hann. Eilíflega studd af Heilögum Anda er það embætti
  hennar að vernda, kenna, túlka og útbreiða sannleikann sem Guð opinberaði
  þá með huliðsblæju fyrir munn spámannanna og algjörlega fyrir munn Drottins
  Jesú. Vér trúum öllu því sem Guðsorð inniheldur, ritað er í erfikenningunni
  og, sem kirkjan ætlast til að trúað sé, sem opinberað af Guði, hvort sem er
  með hátíðlegum úrskurði eða venjulegu og almennu kennsluvaldi27. Vér trúum
  á óskeikulleika þann er arftaki Péturs hefur þegar hann kennir ex cathedra
  sem hirðir og fræðari allra hinna trúuðu28 og sem biskupar allir hafa
  einnig er þeir ásamt honum tala með æðsta kennsluvaldi kirkjunnar29.

  Vér trúum því að eining kirkjunnar sem Jesús Kristur stofnaði og sem hann
  bað fyrir, sé að öllu leyti lýtalaus í trúareiningu, Guðsdýrkun og
  helgistjórnarsamfélagi. Það er öðru nær að hinar fjölmörgu
  helgisiðadeildir, sem innan kirkjunnar eru og hin lögmæta margbreytni, bæði
  guðfræðilegrar og andlegrar arfleifðar og sérstaks kirkjuaga, skerði
  einingu hennar, - það gerir hana miklu fremur augljósari30.

  Þar sem vér viðurkennum einnig að utan kirkju Krists séu margir þættir
  sanninda og leiða til helgunnar, en eru þó eiginleg eign hennar og miða að
  kaþólskri einingu31 og að vér trúum á áhrif Heilags Anda, sem tendrar í
  hjörtum unnenda Krists þrá til einingar þessarar32, þá er það von vor að
  þeir kristnir menn sem enn eru eigi í fullu samfélagi við hina einu réttu
  kirkju muni síðar sameinast í eina hjörð, sem hefur aðeins einn hirði.

  Vér trúum að kirkjan sé nauðsynleg til sáluhjálpar því að Kristur, sem er
  hinn eini meðalgangari og leiðin til sáluhjálpar, kemur og er meðal vor,
  vor vegna í líkama sínum, sem er kirkjan33 en Guð vill að allir menn verði
  hólpnir og þeir sem saklaust þekkja eigi til fagnaðarboðskapar Krists og
  kirkju hans, en leita Guðs einlæglega í hjarta sér, og reyna vegna áhrifa
  náðarinnar að gera Guðsvilja eins og samviska þeirra segir þeim, þeir geta
  einnig orðið sáluhólpnir, þótt Guð einn viti, hve margir slíkir eru34.

  Vér trúum að messan, framborin af prestinum í persónu Krists og fyrir kraft
  þess valds, sem fæst við prestvígsluna, sem er sakramenti, og sem
  presturinn fórnar í nafni Krists og meðlima hins leyndardómsfulla líkama
  hans, sé fórnin, sem færð var á Golgata, sé til staðar á altarinu að
  sakramentishætti. Vér trúum því, að eins og brauðið og vínið sem Drottinn
  vor vígði við hina síðustu kvöldmáltíð, hafi breyst í líkama hans og blóð
  hans sem fórna átti á krossinum vor vegna, þá einnig að brauð það og vín
  sem presturinn vígir breytist í líkama og blóða Krist sem situr í
  dýrðarhásæti á himnum; og vér trúum að hin leyndardómsfulla nærvera
  Drottins, undir því sem fyrir augum vorum heldur áfram að líta út sem það
  áður var, sé sönn, veruleg og eðlisleg nærvera35.

  Kristur getur eigi verið þannig nærstaddur í sakramenti þessu nema að
  brauðið sjálft breytist í líkama hans, og vínið sjálft breytist í blóð
  hans; það sem óbreytt er eftir, eru aðeins mynd brauðsins og vínsins, sem
  skilningarvit vor skynja. Kirkjan kallar leyndardómsfulla breytingu þessa
  réttilega gjörbreytingu. Sérhver guðfræðileg skýring sem reynir að skilja
  leyndardóm þennan að einhverju leyti, verður, til þess að vera samhljóða
  hinni kaþólsku trú, að halda því, að verulega og sannarlega, huga vorum
  óviðkomandi, hafi brauðið og vínið enga tilveru eftir gjörbreytinguna og að
  það sé því hinn guðdómlegi líkami og blóð Drottins Jesú, sem eru frá því
  sannarlega fyrir augum vorum undir Heilögum myndum brauðs og víns36, eins
  og Drottinn vildi að væri til þess að gefa oss sig sem fæðu og sameina oss
  einingu hins leyndardómsfulla líkama síns37.

  Hin sérstaklega og ódeililega tilvera dýrlegs Drottins á himnum,
  margfaldast eigi né eykst, heldur verður hann nærstaddur fyrir sakramentið
  á þeim mörgu stöðum á jörðunni þar sem messufórnin er borin fram; og
  nærvera þessi heldur áfram eftir fórnina í hinu Allrahelgasta sakramenti í
  Guðslíkamahúsinu, sem er hið lifandi hjarta sérhverrar kirkju vorrar. Það
  er vor ljúf skylda að heiðra og tilbiðja Orðið, sem gerðist maður, en sem
  augu vor sjá eigi, tilbiðja hann sem stígur niður til vor og er hjá oss án
  þess þó að hverfa frá himnum.

  Vér játum að Guðsríki sem stofnað var hér á jörð með kirkju Krists, er ekki
  af þessum hverfula heimi og að hinum sanna vexti Guðsríkis megi ekki blanda
  saman við menningarþróun, vísindi né vélamenningu mannkynsins, heldur að
  vöxtur þess sé falinn í sífellt dýpri þekkingu á hinum ómælanlega fjársjóði
  Krists, enn meiri von um eilífa sælu, að vér tökum á móti kærleika Guðs í
  enn ríkara mæli og að enn meiri náð og Heilagleiki verði veittur
  mannkyninu. En það er þessi, hinn sami kærleikur sem hvetur kirkjuna til
  stöðugrar umhyggju fyrir sannri tímanlegri velferð allra manna, án þess að
  þreytast á því, að minna börn sín á, að heimur þessi er eigi þeirra
  varanlegi samastaður, þá hvetur hún þau einnig til þess að láta eitthvað af
  hendi, hvern eftir sinni köllun og efnum, til þess að auka velmegun þessa
  jarðneska dvalarstaðar þeirra, að efla réttlætið, friðinn og bræðralag
  meðal mannanna - að veita bræðrum sínum fúslega hjálparhönd, sérstaklega
  þeim, sem snauðastir og ógæfusamastir eru. Hin mikla umhyggja kirkjunnar,
  brúðar Krists, fyrir þörfum mannkynsins, fyrir gleði þess og von, fyrir
  sorg þess og tilraunum til bóta, er því ekkert annað en hin mikla löngun
  hennar að vera meðal mannanna til þess að lýsa þeim með ljósi Krists og
  safna þeim öllum saman í honum, hinum eina Frelsara þeirra. Umhyggja þessi
  getur aldrei þýtt það, að kirkjan lagi sig eftir þessum heimi, né heldur að
  eftirvænting eftir Drottni hennar og hinu eilífa Guðsríki þverri.

  Vér trúum á eilíft líf. Vér trúum að sálir allra þeirra, sem deyja í
  náðarástandi við Krist, hvort sem þær verða enn að vera hreinar gerðar í
  hreinsunareldinum, eða Jesús tekur þær til sín í Paradís, um leið og þær
  yfirgefa líkamann, eins og Drottinn gerði við hinn iðrandi ræningja, séu
  Guðslýður að eilífu út yfir gröf og dauða, en á dauðanum vinnst lokasigur á
  degi upprisunnar, þegar sálir þessar munu að nýju sameinast líkömum sínum.

  Vér trúum því, að skari sá, er umkringir Jesúm og Maríu í Paradís, sé hinn
  sigri hrósandi kirkja á himnum, þar sem sálir þessar munu í eilífri sælu,
  líta Guð eins og hann er38 og þar sem þær einnig, en þó misjafnlega mikið,
  njóta samfélags við heilaga engla í Guðlegu ríki því, þar sem Kristur
  drottnar í dýrð sinni, og biðja fyrir oss og hjálpa oss í veikleika vorum
  með bróðurlegri umhyggju sinni39.

  Vér trúum á samfélag allra hinna trúuðu í Kristi, þeirra, sem eru
  pílagrímar í þessum heimi, hinna látnu, sem eru að hreinsast af syndum
  sínum, og hinna heilögu, sem á himnum eru. Allar sálir þessar mynda eina
  kirkju; og vér trúum, að í þessu samfélagi hlusti Guð og dýrlingar hans í
  miskunn og kærleika, ætíð á bænir vorar eins og Jesús sagði oss: Biðjið og
  yður mun veitast40. Það er þannig sem vér horfum fram í trú og í von til
  upprisu dauðra og lífs í nýjum heimi.

  Vegsamaður sé Guð, Þríheilagur. Amen.

  Gert í Péturskirkjunni í Vatíkaninu 30. júní 1968

  Páll páfi VI  1. sbr. 1 Tm. 6:20.
  2. sbr. Lk. 22:32.
  3. sbr. Dz. - Sch. 3002.
  4. sbr. 2M. 3:14.
  5. sbr. 1Jh. 4:8.
  6. sbr. 1Tm. 6:16.
  7. sbr. Dz. - Sch. 804.
  8. sbr. Dz. - Sch. 75.
  9. sbr. Dz. - Sch. 75.
  10. sbr. Dz. - Sch. 150.
  11. sbr. Dz. - Sch. 76.
  12. sbr. sama.
  13. sbr. Dz. - Sch. 251-252.
  14. sbr. Lumen Gentium, 53.
  15. sbr. Dz. - Sch. 2803.
  16. sbr. Lumen Gentium, 53.
  17. sbr. Lumen Gentium, 53, 58, 61.
  18. sbr. Dz. - Sch. 3903.
  19. sbr. Lumen Gentium, 53, 56, 61, 63; sbr. ávarp Páls páfa VI við slit 3.
  þingsetu 2. Vatíkanþingsins: AAS LVI (1964) 1016; sbr. Exhort. Apost.
  Signum Magnum, Inngangur.
  20. sbr. Lumen Gentium 62; sbr. Páll VI, Exhort. Apost. Signum Magnum, bls.
  1, nr. 1.
  21. sbr. Dz. - Sch. 1513.
  22. sbr. Rm. 5:20.
  23. sbr. Dz. - Sch. 1514.
  24. sbr. Lumen Gentium, 8, 5.
  25. sbr. Lumen Gentium, 7, 11.
  26. sbr. Sacrosanctum Concilium, 5, 6; sbr. Lumen Gentium, 7, 12, 50.
  27. sbr. Dz. - Sch. 3011.
  28. sbr. Dz. - Sch. 3074.
  29. sbr. Lumen Gentium, 25.
  30. sbr. Lumen Gentium, 23; sbr. Orientalium Ecclesiarum, 2, 3, 5, 6.
  31. sbr. Lumen Gentium, 8.
  32. sbr. Lumen Gentium, 15.
  33. sbr. Lumen Gentium, 14.
  34. sbr. Lumen Gentium, 16.
  35. sbr. Dz. - Sch. 1651.
  36. sbr. Dz. - Sch. 1642, 1651-1654; Páll VI heimsbréfið Mysterium Fidei.
  37. sbr. S.Th., III, 73, 3.
  38. sbr. 1Jh. 3:2; Dz. - Sch. 1000.
  39. sbr. Lumen Gentium, 49.
  40. sbr. Lk. 10:9-10; Jh. 16:24.