Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
Hátíð vitringanna þriggja, ár C
Fyrsti ritningarlestur:
JesajaStatt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér! Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur Drottinn, og dýrð hans birtist yfir þér. Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér. Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni. Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig. Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins.
Sálmur:
Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt, að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni. Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til. Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar. Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt. Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum. Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til EfesusmannaVíst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður: Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Ég hef stuttlega skrifað um það áður. Hann var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum: Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.
Guðspjall:
MatteusarguðspjallÞegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu. Þegar Heródes heyrði þetta, varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum lýðsins og spurði þá: Hvar á Kristur að fæðast? Þeir svöruðu honum: Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum: Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels. Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim, nær stjarnan hefði birst. Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið, og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu. Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim, uns hana bar þar yfir, sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru. En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim í land sitt.