Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
Þrenningarhátíð, ár B
Fyrsti ritningarlestur:
Fimmta bók MóseSpyr þig fyrir um fyrri tíma, sem verið hafa á undan þér, allt frá þeim tíma, er Guð skóp mennina á jörðinni, og frá einu heimsskauti til annars, hvort nokkurn tíma hafi orðið svo miklir hlutir eða nokkuð slíkt heyrst, hvort nokkur þjóð hafi heyrt raust Guðs út úr eldinum, eins og þú hefir heyrt, og þó haldið lífi. Eða hvort Guð hefir til reynt nokkurn tíma að koma sjálfur til þess að ná þjóð af annarri þjóð með máttarverkum, táknum og undrum, með styrjöld, sterkri hendi, útréttum armlegg og miklum skelfingum, eins og Drottinn Guð þinn gjörði við yður í Egyptalandi í augsýn þinni. Þér ber í dag að kannast við það og hugfesta það, að Drottinn, hann er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri og enginn annar. Þú skalt varðveita boð hans og skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, og til þess að þú alla daga megir dvelja langa ævi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
Sálmur:
Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð. Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins. Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans. því að hann talaði og það varð, hann bauð þá stóð það þar. En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans. Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri. Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur. Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til RómverjaÞví að allir þeir, sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs börn. En þér hafið ekki fengið anda, sem gjörir yður að þrælum að lifa aftur í hræðslu, heldur hafið þér fengið anda, sem gefur yður barnarétt. Í þeim anda köllum vér: Abba, faðir! Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.
Guðspjall:
MatteusarguðspjallEn lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda