Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
Hvítasunnudagur, ár B


Fyrsti ritningarlestur:

Postulasagan

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Þeir voru frá sér af undrun og sögðu:

“Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala? Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál? Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs.”


Sálmur:

Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd. Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað. Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar. Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar. Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum. Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.


Síðari ritningarlestur:

Fyrra bréf Páls til Korintumanna

Fyrir því læt ég yður vita, að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: “Bölvaður sé Jesús!” og enginn getur sagt: “Jesús er Drottinn!” nema af heilögum anda. Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami, og mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami, og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum. Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er. Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: “Skrifaðu ekki ‘konungur Gyðinga’, heldur að hann hafi sagt: ‘Ég er konungur Gyðinga’.” Pílatus svaraði: “Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað.” Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr.