Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
Páskasunnudagur, ár C


Fyrsti ritningarlestur:

Postulasagan

Þá tók Pétur til máls og sagði: “Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Þér vitið, hvað gjörst hefur um alla Júdeu, en hófst í Galíleu eftir skírnina, sem Jóhannes prédikaði. Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum. Vér erum vottar alls þess, er hann gjörði, bæði í landi Gyðinga og í Jerúsalem. Og hann hengdu þeir upp á tré og tóku af lífi. En Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast, ekki öllum lýðnum, heldur þeim vottum, sem Guð hafði áður kjörið, oss, sem átum og drukkum með honum, eftir að hann var risinn upp frá dauðum. Og hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað. Honum bera allir spámennirnir vitni, að sérhver, sem á hann trúir, fái fyrir hans nafn fyrirgefningu syndanna.”


Sálmur:

Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. Það mæli Ísrael: “Því að miskunn hans varir að eilífu!” hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki. Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins. Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini. Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Kólossumanna

Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er. Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði. Þegar Kristur, sem er líf yðar, opinberast, þá munuð þér og ásamt honum opinberast í dýrð.


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann. Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu. Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: “Sæll þú, konungur Gyðinga,” og slógu hann í andlitið. Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við þá: “Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum.” Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við þá: “Sjáið manninn!” Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann, æptu þeir: “Krossfestu, krossfestu!” Pílatus sagði við þá: “Takið þér hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum.” Gyðingar svöruðu: “Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni.” Þegar Pílatus heyrði þessi orð, varð hann enn hræddari. Hann fór aftur inn í höllina og segir við Jesú: “Hvaðan ertu?” En Jesús veitti honum ekkert svar.