Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
Hátíð hinar heilögu fjölskyldu, ár C
Fyrsti ritningarlestur:
SíraksbókÞví að Drottinn hefur sett börnum að heiðra föður, ákvarðað rétt móður yfir sonum. Sá sem virðir föður sinn bætir fyrir syndir, og sá sem heiðrar móður sína safnar sér fjársjóði. Sá sem virðir föður sinn mun barnalán hljóta, og er hann biður hlýtur hann bænheyrslu. Sá sem heiðrar föður sinn mun langlífur verða, og sá sem hlýðir Drottni er móður sinni huggun. Hlýð foreldrum eins og þræll húsbændum. Annastu föður þinn í elli hans, barnið mitt, hrygggðu hann ei svo lengi sem hann lifir. Ver honum nærgætinn þótt hann elliglöp sæki, vanvirð hann eigi meðan þér enn svellur þróttur. Gæska við föður gleymist eigi, hún mun bæta fyrir það sem syndir þínar spilltu.
Sálmur:
Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum. Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér. Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt. Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin. Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til KólossumannaÍklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans. Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama. Verðið þakklátir. Látið orð Krists búa ríkulega hjá yður með allri speki. Fræðið og áminnið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar. Hvað sem þér gjörið í orði eða verki, gjörið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður fyrir hann. Þér konur, verið undirgefnar mönnum yðar, eins og sómir þeim, er Drottni heyra til. Þér menn, elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær. Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til. Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.
Guðspjall:
LúkasarguðspjallForeldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans. Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin. Og hann sagði við þau: Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns? En þau skildu ekki það er hann talaði við þau. Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.