Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
Hátíð hinar heilögu fjölskyldu, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Síraksbók

Því að Drottinn hefur sett börnum að heiðra föður, ákvarðað rétt móður yfir sonum. Sá sem virðir föður sinn bætir fyrir syndir, og sá sem heiðrar móður sína safnar sér fjársjóði. Sá sem virðir föður sinn mun barnalán hljóta, og er hann biður hlýtur hann bænheyrslu. Sá sem heiðrar föður sinn mun langlífur verða, og sá sem hlýðir Drottni er móður sinni huggun. Hlýð foreldrum eins og þræll húsbændum. Annastu föður þinn í elli hans, barnið mitt, hryggðu hann ei svo lengi sem hann lifir. Ver honum nærgætinn þótt hann elliglöp sæki, vanvirð hann eigi meðan þér enn svellur þróttur.


Sálmur:

Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum. Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér. Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt. Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin. Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Kólossumanna

Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans. Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama. Verðið þakklátir. Látið orð Krists búa ríkulega hjá yður með allri speki. Fræðið og áminnið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar. Hvað sem þér gjörið í orði eða verki, gjörið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður fyrir hann. Þér konur, verið undirgefnar mönnum yðar, eins og sómir þeim, er Drottni heyra til. Þér menn, elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær. Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til. Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Þegar þeir voru farnir, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: “Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.” Hann vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvaldist hann þangað til Heródes var allur. Það sem Drottinn sagði fyrir munn spámannsins, skyldi rætast: “Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.” Þegar Heródes var dáinn, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi og segir: “Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir, sem sátu um líf barnsins.” Hann tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess. En þá er hann heyrði, að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar föður síns, óttaðist hann að fara þangað, og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi. Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: “Nasarei skal hann kallast.”