Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
Dýridagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Fimmta bók Móse

Þú skalt minnast þess, hversu Drottinn Guð þinn hefir leitt þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni til þess að auðmýkja þig og reyna þig, svo að hann kæmist að raun um, hvað þér býr í hjarta, hvort þú mundir halda boðorð hans eða ekki. Hann auðmýkti þig og lét þig þola hungur og gaf þér síðan manna að eta, sem þú eigi þekktir áður né heldur feður þínir þekktu, svo að þú skyldir sjá, að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur að maðurinn lifir á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins. Lát þá eigi hjarta þitt ofmetnast og gleym eigi Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, sem leiddi þig um eyðimörkina miklu og hræðilegu, þar sem voru eitraðir höggormar og sporðdrekar og vatnslaust þurrlendi, og leiddi fram vatn handa þér af tinnuhörðum klettinum, hann sem gaf þér manna að eta í eyðimörkinni, er feður þínir eigi þekktu, svo að hann gæti auðmýkt þig og svo að hann gæti reynt þig, en gjört síðan vel við þig á eftir.


Sálmur:

Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon, því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru. Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti. Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða. Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði. Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.


Síðari ritningarlestur:

Fyrra bréf Páls til Korintumanna

Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs." Nú deildu Gyðingar sín á milli og sögðu: "Hvernig getur þessi maður gefið oss hold sitt að eta?" Þá sagði Jesús við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi fyrir föðurinn, svo mun sá lifa fyrir mig, sem mig etur. Þetta er það brauð, sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið, sem feðurnir átu og dóu. Sá sem etur þetta brauð, mun lifa að eilífu."