Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
7. Sunnudagur í páskum, ár C
Fyrsti ritningarlestur:
PostulasaganFyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt, sem Jesús gjörði og kenndi frá upphafi, allt til þess dags, er hann gaf postulunum, sem hann hafði valið, fyrirmæli sín fyrir heilagan anda og varð upp numinn. Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki. Er hann var með þeim, bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem, heldur bíða eftir fyrirheiti föðurins, sem þér, sagði hann, hafið heyrt mig tala um. Því að Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga. Meðan þeir voru saman, spurðu þeir hann: Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael? Hann svaraði: Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi. En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar. Þegar hann hafði þetta mælt, varð hann upp numinn að þeim ásjáandi, og ský huldi hann sjónum þeirra. Er þeir störðu til himins á eftir honum, þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum og sögðu: Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.
Sálmur:
Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi. Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni. Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn. Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið! Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng! Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til EfesusmannaÉg bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu, og hver hinn yfirgnæfandi máttur hans við oss, sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn, sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi. Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum, sem sjálfur fyllir allt í öllu.
Guðspjall:
LúkasarguðspjallOg hann sagði við þá: Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa. Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið þér kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum. Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá. En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þeir féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði.