Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
7. sunnudagur í páskum, ár B
Fyrsti ritningarlestur:
PostulasaganÁ þessum dögum stóð Pétur upp meðal bræðranna. Þar var saman kominn flokkur manna, um eitt hundrað og tuttugu að tölu. Hann mælti: Bræður, rætast hlaut ritning sú, er heilagur andi sagði fyrir munn Davíðs um Júdas, sem vísaði leið þeim, er tóku Jesú höndum. Hann var í vorum hópi, og honum var falin sama þjónusta. Ritað er í Sálmunum: Bústaður hans skal í eyði verða, enginn skal í honum búa, og: Annar taki embætti hans. Einhver þeirra manna, sem með oss voru alla tíð, meðan Drottinn Jesús gekk inn og út vor á meðal, allt frá skírn Jóhannesar til þess dags, er hann varð upp numinn frá oss, verður nú að gjörast vottur upprisu hans ásamt oss. Og þeir tóku tvo til, Jósef, kallaðan Barsabbas, öðru nafni Jústus, og Mattías, báðust fyrir og sögðu: Drottinn, þú sem þekkir hjörtu allra. Sýn þú, hvorn þessara þú hefur valið til að taka þessa þjónustu og postuladóm, sem Júdas vék frá til að fara til síns eigin staðar. Þeir hlutuðu um þá, og kom upp hlutur Mattíasar. Var hann tekinn í tölu postulanna með þeim ellefu.
Sálmur:
Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn, lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum, heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann. Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi. Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
Síðari ritningarlestur:
Fyrsta bréf JóhannesarÞér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef vér elskum hver annan, þá er Guð stöðugur í oss og kærleikur hans er fullkomnaður í oss. Vér þekkjum, að vér erum stöðugir í honum og hann í oss, af því að hann hefur gefið oss af sínum anda. Vér höfum séð og vitnum, að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar, að Jesús sé Guðs sonur, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann. Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.
Guðspjall:
JóhannesarguðspjallEnn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú. En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á. Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður. Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig. Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: Hvað er hann að segja við oss: Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins? Þeir spurðu: Hvað merkir þetta: Innan skamms? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara. Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.