Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
6. sunnudagur í páskum, ár A
Fyrsti ritningarlestur:
PostulasaganFilippus fór norður til höfuðborgar Samaríu og prédikaði Krist þar. Menn hlýddu með athygli á orð Filippusar, þegar þeir heyrðu hann tala og sáu táknin, sem hann gjörði. Margir höfðu óhreina anda, og fóru þeir út af þeim með ópi miklu. Og margir lama menn og haltir voru læknaðir. Mikill fögnuður varð í þeirri borg.
Sálmur:
Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki, syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan. Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér. Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum. Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum. Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela] Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig. Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.
Síðari ritningarlestur:
Fyrra almenna bréf PétursEn helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu, og hafið góða samvisku, til þess að þeir, sem lasta góða hegðun yðar sem kristinna manna, verði sér til skammar í því, sem þeir mæla gegn yður. Því að það er betra, ef Guð vill svo vera láta, að þér líðið fyrir að breyta vel, heldur en fyrir að breyta illa. Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda.
Guðspjall:
JóhannesarguðspjallEf þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig."