Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
6. sunnudagur, ár B
Fyrsti ritningarlestur:
Þriðja bók MóseDrottinn talaði við Móse og Aron og sagði: Nú tekur einhver þrota, hrúður eða gljádíla í skinnið á hörundi sínu og verður að líkþrárskellu í skinninu á hörundi hans. Þá skal leiða hann fyrir Aron prest eða einhvern af prestunum, sonum hans. þá er hann maður líkþrár og er óhreinn. Prestur skal sannlega dæma hann óhreinan. Líkþrársóttin er í höfði honum. Líkþrár maður, er sóttina hefir, klæði hans skulu vera rifin og hár hans flakandi, og hann skal hylja kamp sinn og hrópa: Óhreinn, óhreinn! Alla þá stund, er hann hefir sóttina, skal hann óhreinn vera. Hann er óhreinn. Hann skal búa sér. Bústaður hans skal vera fyrir utan herbúðirnar.
Sálmur:
Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda. Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni, og þú fyrirgafst syndasekt mína. Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!
Síðari ritningarlestur:
Fyrra bréf Páls til KorintumannaHvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar. Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar. Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag, heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir. Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.
Guðspjall:
MarkúsarguðspjallMaður nokkur líkþrár kom til hans, féll á kné og bað hann: Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig. Og hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snart hann og mælti: Ég vil, verð þú hreinn! Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin, og hann varð hreinn. Og Jesús lét hann fara, lagði ríkt á við hann og sagði: Gæt þess að segja engum neitt, en far þú, sýn þig prestinum og fórna fyrir hreinsun þína því, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar. En maðurinn gekk burt og ræddi margt um þetta og víðfrægði mjög, svo að Jesús gat ekki framar komið opinberlega í neina borg, heldur hafðist við úti á óbyggðum stöðum. En menn komu til hans hvaðanæva.