Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
5. Sunnudagur í páskum, ár C


Fyrsti ritningarlestur:

Postulasagan

Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í þeirri borg og gjört marga að lærisveinum, sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu, styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: “Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar.” Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni, sem þeir höfðu fest trú á. Þá fóru þeir um Pisidíu og komu til Pamfýlíu. Þeir fluttu orðið í Perge, fóru til Attalíu og sigldu þaðan til Antíokkíu, en þar höfðu þeir verið faldir náð Guðs til þess verks, sem þeir höfðu nú fullnað. Þegar þeir voru þangað komnir, stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra og að hann hefði upp lokið dyrum trúarinnar fyrir heiðingjum.


Sálmur:

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar. Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig. Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu. Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns. Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.


Síðari ritningarlestur:

Opinberun Jóhannesar

Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: “Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.” Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: “Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,” og hann segir: “Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.”


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

Þegar hann var farinn út, sagði Jesús: “Nú er Mannssonurinn dýrlegur orðinn, og Guð er orðinn dýrlegur í honum. Fyrst Guð er orðinn dýrlegur í honum, mun Guð og gjöra hann dýrlegan í sér, og skjótt mun hann gjöra hann dýrlegan. Börnin mín, stutta stund verð ég enn með yður. Þér munuð leita mín, og eins og ég sagði Gyðingum, segi ég yður nú: Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist. Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.”