Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
5. sunnudagur í lönguföstu, ár B
Fyrsti ritningarlestur:
JeremíaSjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn - að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra - segir Drottinn. En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta - segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: Lærið að þekkja Drottin, því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir - segir Drottinn. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.
Sálmur:
Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi. Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni, Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér. Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda, að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.
Síðari ritningarlestur:
Bréfið til HebreaÁ jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar. Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið. Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis,
Guðspjall:
JóhannesarguðspjallGrikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni. Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: Herra, oss langar að sjá Jesú. Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú. Jesús svaraði þeim: Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra. Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu: Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt! Þá kom rödd af himni: Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt. Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði, að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: Engill var að tala við hann. Jesús svaraði þeim: Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín. Þetta sagði hann til að gefa til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.