Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
5. sunnudagur, ár B
Fyrsti ritningarlestur:
JobsbókEr ekki líf mannsins á jörðinni herþjónusta og dagar hans sem dagar daglaunamanns? Eins og þræll, sem þráir forsælu, og eins og daglaunamaður, sem bíður eftir kaupi sínu, svo hafa mér hlotnast mæðumánuðir og kvalanætur orðið hlutskipti mitt. Þegar ég leggst til hvíldar, hugsa ég: Nær mun ég rísa á fætur? Og kveldið er langt, og ég fæ mig fullsaddan á að bylta mér uns aftur eldir. Dagar mínir eru hraðfleygari en vefjarskyttan, og þeir hverfa án vonar. Minnstu þess, Guð, að líf mitt er andgustur! Aldrei framar mun auga mitt gæfu líta.
Sálmur:
Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur. Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael. Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra. Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni. Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg. Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
Síðari ritningarlestur:
Fyrra bréf Páls til KorintumannaÞótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið. Því að gjöri ég þetta af frjálsum vilja, þá fæ ég laun, en gjöri ég það tilknúður, þá hefur mér verið trúað fyrir ráðsmennsku. Hver eru þá laun mín? Að ég boða fagnaðarerindið án endurgjalds og hagnýti mér ekki það, sem ég á rétt á. Þótt ég sé öllum óháður, hef ég gjört sjálfan mig að þræli allra, til þess að ávinna sem flesta. Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra. Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.
Guðspjall:
MarkúsarguðspjallÚr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes. Tengdamóðir Símonar lá með sótthita, og sögðu þeir Jesú þegar frá henni. Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni, og hún gekk þeim fyrir beina. Þegar kvöld var komið og sólin setst, færðu menn til hans alla þá, er sjúkir voru og haldnir illum öndum, og allur bærinn var saman kominn við dyrnar. Hann læknaði marga, er þjáðust af ýmsum sjúkdómum, og rak út marga illa anda, en illu öndunum bannaði hann að tala, því að þeir vissu hver hann var. Og árla, löngu fyrir dögun, fór hann á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir. Þeir Símon leituðu hann uppi, og þegar þeir fundu hann, sögðu þeir við hann: Allir eru að leita að þér. Hann sagði við þá: Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn. Og hann fór og prédikaði í samkundum þeirra í allri Galíleu og rak út illa anda.