Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
5. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Jesaja

Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð. Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér. Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp og hann segja: "Hér er ég!" Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum, ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.


Sálmur:

Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur. Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi, því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð. Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni. Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta. Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.


Síðari ritningarlestur:

Fyrra bréf Páls til Korintumanna

Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki. Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan. Og ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist. Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar, til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.