Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
4. Sunnudagur í páskum, ár C


Fyrsti ritningarlestur:

Postulasagan

Sjálfir héldu þeir áfram frá Perge og komu til Antíokkíu í Pisidíu, gengu á hvíldardegi inn í samkunduhúsið og settust. Og er samkomunni var slitið, fylgdu margir Gyðingar og guðræknir menn, sem tekið höfðu trú Gyðinga, þeim Páli og Barnabasi. En þeir töluðu við þá og brýndu fyrir þeim að halda sér fast við náð Guðs. Næsta hvíldardag komu nálega allir bæjarmenn saman til að heyra orð Drottins. En er Gyðingar litu mannfjöldann, fylltust þeir ofstæki og mæltu gegn orðum Páls með guðlasti. Páll og Barnabas svöruðu þá einarðlega: “Svo hlaut að vera, að orð Guðs væri fyrst flutt yður. Þar sem þér nú vísið því á bug og metið sjálfa yður ekki verða eilífs lífs, þá snúum vér oss nú til heiðingjanna. Því að svo hefur Drottinn boðið oss: Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða, að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar.” En er heiðingjar heyrðu þetta, glöddust þeir og vegsömuðu orð Guðs, og allir þeir, sem ætlaðir voru til eilífs lífs, tóku trú. Og orð Drottins breiddist út um allt héraðið. En Gyðingar æstu upp guðræknar hefðarkonur og fyrirmenn borgarinnar og vöktu ofsókn gegn Páli og Barnabasi og ráku þá burt úr byggðum sínum. En þeir hristu dustið af fótum sér móti þeim og fóru til Íkóníum. En lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda.


Sálmur:

Öll veröldin fagni fyrir Drottni! Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng! Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð. Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.


Síðari ritningarlestur:

Opinberun Jóhannesar

Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum. Og ég sagði við hann: “Herra minn, þú veist það.” Hann sagði við mig: “Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá. Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.”


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

“Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni. Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins. Ég og faðirinn erum eitt.”