Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
4. sunnudagur í páskum, ár B
Fyrsti ritningarlestur:
PostulasaganÞá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: Þér höfðingjar lýðsins og öldungar, með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því, hvernig hann sé heill orðinn, þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar. Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn. Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.
Sálmur:
Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum, betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum. Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði. Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini. Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður. Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig. Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
Síðari ritningarlestur:
Fyrsta bréf JóhannesarSjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn. Og það erum vér. Heimurinn þekkir oss ekki, vegna þess að hann þekkti hann ekki. Þér elskaðir, nú þegar erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er.
Guðspjall:
JóhannesarguðspjallÉg er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina. Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig, eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur. Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum.