Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
4. sunnudagur í lönguföstu, ár B


Fyrsti ritningarlestur:

Síðari Kroníkubók

Þá sýndu og allir höfðingjar prestanna og lýðsins mikla ótrúmennsku með því að drýgja allar sömu svívirðingarnar og heiðingjarnir, og saurguðu svo musteri Drottins, það er hann hafði helgað í Jerúsalem. Og Drottinn, Guð feðra þeirra, sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum. En þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði Drottins við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra. Hann lét Kaldeakonung fara herför gegn þeim, og drap hann æskumenn þeirra með sverði í helgidómi þeirra. Þyrmdi hann hvorki æskumönnum né ungmeyjum, öldruðum né örvasa - allt gaf Guð honum á vald. Þeir brenndu musteri Guðs, rifu niður Jerúsalem-múra, lögðu eld í allar hallir í henni, svo að allt verðmætt í henni týndist. Og þá sem komist höfðu undan sverðinu, herleiddi hann til Babýloníu, og urðu þeir þjónar hans og sona hans, uns Persaríki náði yfirráðum, til þess að rætast skyldi orð Drottins fyrir munn Jeremía: “Þar til er landið hefir fengið hvíldarár sín bætt upp, alla þá stund, sem það var í eyði, naut það hvíldar, uns sjötíu ár voru liðin.” En á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn Kýrusi Persakonungi því í brjóst til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættust, að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, svolátandi boðskap:

"Svo segir Kýrus Persakonungur: ‘Öll konungsríki jarðarinnar hefir Drottinn, Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda. Hver sem nú er meðal yðar af öllu hans fólki, með honum sé Drottinn, Guð hans, og hann fari heim.”


Sálmur:

Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar. Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar. Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: “Syngið oss Síonarkvæði!” Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi? Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd. Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Efesusmanna

En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss, hefur hann endurlífgað oss með Kristi, þegar vér vorum dauðir vegna misgjörða vorra. Af náð eruð þér hólpnir orðnir. Guð hefur uppvakið oss í Kristi Jesú og búið oss stað í himinhæðum með honum. Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú. Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau.


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn, svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum. Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann. Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. Sá sem trúir ekki, er þegar dæmdur, því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina. En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.