Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
4. sunnudagur, ár C


Fyrsti ritningarlestur:

Jeremía

Orð Drottins kom til mín: Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig. Ég hefi ákvarðað þig til að vera spámann þjóðanna! En gyrð þú lendar þínar, statt upp og tala til þeirra allt, sem ég býð þér. Vertu ekki hræddur við þá, til þess að ég gjöri þig ekki hræddan frammi fyrir þeim. Sjá, ég gjöri þig í dag að rammbyggðri borg og að járnsúlu og að eirveggjum gegn öllu landinu, gegn Júdakonungunum, gegn höfðingjum þess, gegn prestum þess og gegn öllum landslýðnum, og þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig – Drottinn segir það.


Sálmur:

Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér. Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi. Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra. Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku. Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn. Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim. Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt. Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.


Síðari ritningarlestur:

Fyrra bréf Páls til Korintumanna

Nei, sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið. Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok. Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum. En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum. Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn. Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.


Guðspjall:

Lúkasarguðspjall

Hann tók þá að tala til þeirra: “Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar.” Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans, og sögðu: “Er hann ekki sonur Jósefs?” En hann sagði við þá: “Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ‘Læknir, lækna sjálfan þig!’ Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni.” Enn sagði hann: “Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu. En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu, og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi. Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur.” Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta, spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan. En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.