Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
4. sunnudagur, ár B
Fyrsti ritningarlestur:
MalakíSjá, ég sendi sendiboða minn, og hann mun greiða veginn fyrir mér. Og bráðlega mun hann koma til musteris síns, sá Drottinn er þér leitið, og engill sáttmálans, sá er þér þráið. Sjá, hann kemur segir Drottinn allsherjar. En hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist? Því að hann er sem eldur málmbræðslumannsins og sem lútarsalt þvottamannanna. Og hann mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana og gjöra þá skíra sem gull og silfur, til þess að Drottinn hafi aftur þá menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er, og þá munu fórnir Júdamanna og Jerúsalembúa geðjast Drottni eins og forðum daga og eins og á löngu liðnum árum.
Sálmur:
Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga. Hver er þessi konungur dýrðarinnar? Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan. Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga. Hver er þessi konungur dýrðarinnar? Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar.
Síðari ritningarlestur:
Bréfið til HebreaÞar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi. Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams. Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins. Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.
Guðspjall:
LúkasarguðspjallEn er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse, fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, en svo er ritað í lögmáli Drottins: Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni, og til að færa fórn eins og segir í lögmáli Drottins, tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur. Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi. Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins, tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði: Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér, því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael. Faðir hans og móðir undruðust það, er sagt var um hann. En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns, sem móti verður mælt, og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar. Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hafði hún lifað sjö ár með manni sínum frá því hún var mær og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi. Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem. Og er þau höfðu lokið öllu eftir lögmáli Drottins, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret. En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.