Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
3. Sunnudagur í páskum, ár C
Fyrsti ritningarlestur:
PostulasaganÞegar þeir voru komnir með þá, leiddu þeir þá fram fyrir ráðið, og æðsti presturinn tók að yfirheyra þá og sagði: Stranglega bönnuðum vér yður að kenna í þessu nafni, og nú hafið þér fyllt Jerúsalem með kenningu yðar og viljið steypa yfir oss blóði þessa manns. En Pétur og hinir postularnir svöruðu: Framar ber að hlýða Guði en mönnum. Guð feðra vorra hefur upp vakið Jesú, sem þér hengduð á tré og tókuð af lífi. Hann hefur Guð hafið sér til hægri handar og gjört hann að foringja og frelsara til að veita Ísrael afturhvarf og fyrirgefningu synda sinna. Vér erum vottar alls þessa, og heilagur andi, sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða. Þeir féllust á mál hans, kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa. Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.
Sálmur:
Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér. Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar. Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn. Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni. Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn! Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði, að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
Síðari ritningarlestur:
Opinberun JóhannesarÞá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið og verurnar og öldungana, og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda. Þeir sögðu með hárri röddu: Maklegt er lambið hið slátraða að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð. Og allt skapað, sem er á himni og jörðu og undir jörðunni og á hafinu, allt sem í þeim er, heyrði ég segja: Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda. Og verurnar fjórar sögðu: Amen. Og öldungarnir féllu fram og veittu lotningu.
Guðspjall:
JóhannesarguðspjallEftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Símon Pétur segir við þá: Ég fer að fiska. Þeir segja við hann: Vér komum líka með þér. Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert. Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki, að það var Jesús. Jesús segir við þá: Drengir, hafið þér nokkurn fisk? Þeir svöruðu: Nei. Hann sagði: Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir. Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: Þetta er Drottinn. Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík - hann var fáklæddur - og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum. Þegar þeir stigu á land, sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð. Jesús segir við þá: Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða. Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki, þótt þeir væru svo margir. Jesús segir við þá: Komið og matist. En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: Hver ert þú? Enda vissu þeir, að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.
Þegar þeir höfðu matast, sagði Jesús við Símon Pétur: Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir? Hann svarar: Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig. Jesús segir við hann: Gæt þú lamba minna. Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: Símon Jóhannesson, elskar þú mig? Hann svaraði: Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig. Jesús segir við hann: Ver hirðir sauða minna. Hann segir við hann í þriðja sinn: Símon Jóhannesson, elskar þú mig? Pétur hryggðist við, að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: Elskar þú mig? Hann svaraði: Drottinn, þú veist allt. Þú veist, að ég elska þig. Jesús segir við hann: Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur, bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir, en þegar þú ert orðinn gamall, munt þú rétta út hendurnar, og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki. Þetta sagði Jesús til að kynna, með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt, sagði hann við hann: Fylg þú mér.