Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
3. sunnudagur í páskum, ár A
Fyrsti ritningarlestur:
PostulasaganÞá steig Pétur fram og þeir ellefu, og hann hóf upp rödd sína og mælti til þeirra: "Gyðingar og allir þér Jerúsalembúar! Þetta skuluð þér vita. Ljáið eyru orðum mínum. Ísraelsmenn, heyrið þessi orð: Jesús frá Nasaret var maður, sem Guð sannaði yður með kraftaverkum, undrum og táknum, er Guð lét hann gjöra meðal yðar, eins og þér sjálfir vitið. Hann var framseldur að fyrirhuguðu ráði Guðs og fyrirvitund, og þér létuð heiðna menn negla hann á kross og tókuð hann af lífi. En Guð leysti hann úr nauðum dauðans og reisti hann upp, enda gat það aldrei orðið, að dauðinn fengi haldið honum, því að Davíð segir um hann: Ávallt hafði ég Drottin fyrir augum mér, því að hann er mér til hægri hliðar, til þess að ég bifist ekki. Fyrir því gladdist hjarta mitt, og tunga mín fagnaði. Meira að segja mun líkami minn hvílast í von. Því að ekki munt þú skilja sálu mína eftir í helju og eigi láta þinn heilaga verða rotnun að bráð. Kunna gjörðir þú mér lífsins vegu. Þú munt mig fögnuði fylla fyrir þínu augliti. Bræður, óhikað get ég við yður talað um ættföðurinn Davíð. Hann dó og var grafinn, og leiði hans er til hér allt til þessa dags. En hann var spámaður og vissi, að Guð hafði með eiði heitið honum að setja í hásæti hans einhvern niðja hans. Því sá hann fyrir upprisu Krists og sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju, og ekki varð líkami hans rotnun að bráð. Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess. Nú er hann upp hafinn til Guðs hægri handar og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum, eins og þér sjáið og heyrið."
Sálmur:
Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis. Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig." Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum. Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra. Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur. Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði, því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina. Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
Síðari ritningarlestur:
Fyrra almenna bréf PétursFyrst þér ákallið þann sem föður, er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins, þá gangið fram í guðsótta útlegðartíma yðar. Þér vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar, heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists. Hann var útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð, en var opinberaður í lok tímanna vegna yðar. Fyrir hann trúið þér á Guð, er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð, svo að trú yðar skyldi jafnframt vera von til Guðs.
Guðspjall:
LúkasarguðspjallTveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus. Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði. Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki. Og hann sagði við þá: "Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?" Þeir námu staðar, daprir í bragði, og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: "Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana." Hann spurði: "Hvað þá?" Þeir svöruðu: "Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð, hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann. Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við. Þá hafa og konur nokkrar úr vorum hóp gjört oss forviða. Þær fóru árla til grafarinnar, en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð engla í sýn, er sögðu hann lifa. Nokkrir þeirra, sem með oss voru, fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt, en hann sáu þeir ekki." Þá sagði hann við þá: "Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað! Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?" Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum. Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra. Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: "Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar." Og hann fór inn til að vera hjá þeim. Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum. Og þeir sögðu hvor við annan: "Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?" Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þá, er með þeim voru, saman komna, og sögðu þeir: "Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni." Hinir sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið.