Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
3. sunnudagur lönguföstu, ár C


Fyrsti ritningarlestur:

Önnur bók Móse

En Móse gætti sauða Jetró tengdaföður síns, prests í Midíanslandi. Og hann hélt fénu vestur yfir eyðimörkina og kom til Guðs fjalls, til Hóreb. Þá birtist honum engill Drottins í eldsloga, sem lagði út af þyrnirunna nokkrum. Og er hann gætti að, sá hann, að þyrnirunninn stóð í ljósum loga, en brann ekki. Þá sagði Móse: “Ég vil ganga nær og sjá þessa miklu sýn, hvað til þess kemur, að þyrnirunninn brennur ekki.” En er Drottinn sá, að hann vék þangað til að skoða þetta, þá kallaði Guð til hans úr þyrnirunnanum og sagði: “Móse, Móse!” Hann svaraði: “Hér er ég.” Guð sagði: “Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð.” Því næst mælti hann: “Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.” Þá byrgði Móse andlit sitt, því að hann þorði ekki að líta upp á Guð. Drottinn sagði: “Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á. Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, á stöðvar Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.” Móse sagði við Guð: “En þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: ‘Guð feðra yðar sendi mig til yðar,’ og þeir segja við mig: ‘Hvert er nafn hans?’ hverju skal ég þá svara þeim?” Þá sagði Guð við Móse: “Ég er sá, sem ég er.” Og hann sagði: “Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ‘Ég er’ sendi mig til yðar.” Guð sagði enn fremur við Móse: “Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ‘Drottinn, Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.’ Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns.”


Sálmur:

Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn, lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn. Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum. Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín. Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.


Síðari ritningarlestur:

Fyrra bréf Páls til Korintumanna

Ég vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu og fóru allir yfir um hafið. Allir voru skírðir til Móse í skýinu og hafinu. Allir neyttu hinnar sömu andlegu fæðu og drukku allir hinn sama andlega drykk. Þeir drukku af hinum andlega kletti, sem fylgdi þeim. Kletturinn var Kristur. En samt hafði Guð enga velþóknun á flestum þeirra og þeir féllu í eyðimörkinni. Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það. Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum. Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir. Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.


Guðspjall:

Lúkasarguðspjall

Í sama mund komu einhverjir og sögðu honum frá Galíleumönnunum, að Pílatus hefði blandað blóði þeirra í fórnir þeirra. Jesús mælti við þá: “Haldið þér, að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn, fyrst þeir urðu að þola þetta? Nei, segi ég yður, en ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins. Eða þeir átján, sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, haldið þér, að þeir hafi verið sekari en allir þeir menn, sem í Jerúsalem búa? Nei, segi ég yður, en ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins.” En hann sagði þessa dæmisögu: “Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: ‘Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?’ En hann svaraði honum: ‘Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.’”