Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
3. sunnudagur í aðventu, ár B


Fyrsti ritningarlestur:

Jesaja

Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn, til að boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda, Ég gleðst yfir Drottni, sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins, hann hefir sveipað mig í skikkju réttlætisins, eins og þegar brúðgumi lætur á sig höfuðdjásn og brúður býr sig skarti sínu. Því eins og jörðin lætur gróður sinn koma upp og eins og aldingarðurinn lætur frækornin upp spretta, svo mun hinn alvaldi Drottinn láta réttlæti og frægð upp spretta í augsýn allra þjóða.


Sálmur:

Og María sagði: Önd mín miklar Drottin, og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja. Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans. Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns. hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara. Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,


Síðari ritningarlestur:

Verið ætíð glaðir. Biðjið án afláts. Þakkið alla hluti, því að það er vilji Guðs með yður í Kristi Jesú. Slökkvið ekki andann. Fyrirlítið ekki spádómsorð. Prófið allt, haldið því, sem gott er. En forðist allt illt, í hvaða mynd sem er. En sjálfur friðarins Guð helgi yður algjörlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists. Trúr er sá, er yður kallar, hann mun koma þessu til leiðar.


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Þessi er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að spyrja hann: "Hver ert þú?" Hann svaraði ótvírætt og játaði: "Ekki er ég Kristur." Þeir spurðu hann: "Hvað þá? Ertu Elía?" Hann svarar: "Ekki er ég hann." "Ertu spámaðurinn?" Hann kvað nei við. Þá sögðu þeir við hann: "Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?" Hann sagði: "Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir." Sendir voru menn af flokki farísea. Þeir spurðu hann: "Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?" Jóhannes svaraði: "Ég skíri með vatni. Mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki, hann, sem kemur eftir mig, og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa." Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.