Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
3. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Jesaja

Eigi skal myrkur vera í landi því, sem nú er í nauðum statt. Fyrrum lét hann vansæmd koma yfir Sebúlonsland og Naftalíland, en síðar meir mun hann varpa frægð yfir leiðina til hafsins, landið hinumegin Jórdanar og Galíleu heiðingjanna. Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós. Þú eykur stórum fögnuðinn, þú gjörir gleðina mikla. Menn gleðja sig fyrir þínu augliti, eins og þegar menn gleðjast á kornskurðartímanum, eins og menn leika af fögnuði þegar herfangi er skipt.


Sálmur:

Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast? Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans. Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda! Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.


Síðari ritningarlestur:

Fyrra bréf Páls til Korintumanna

En ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun. Því að mér hefur verið tjáð um yður, bræður mínir, af heimilismönnum Klóe, að þrætur eigi sér stað á meðal yðar. Ég á við þetta, að sumir yðar segja: "Ég er Páls," og aðrir: "Ég er Apollóss," eða: "Ég er Kefasar," eða: "Ég er Krists." Er þá Kristi skipt í sundur? Mun Páll hafa verið krossfestur fyrir yður? Eða eruð þér skírðir til nafns Páls?


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Þegar hann heyrði, að Jóhannes hefði verið tekinn höndum, hélt hann til Galíleu. Hann fór frá Nasaret og settist að í Kapernaum við vatnið í byggðum Sebúlons og Naftalí. Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: Sebúlonsland og Naftalíland við vatnið, landið handan Jórdanar, Galílea heiðingjanna. Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið. Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: "Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd." Hann gekk með Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn. Hann sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða." Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum. Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans. Þeir voru í bátnum með Sebedeusi, föður sínum, að búa net sín. Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum. Hann fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins.