Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
34. sunnudagur ár B, Hátíð Krists Konungs


Fyrsti ritningarlestur:

Daníel

Ég horfði í nætursýnunum, og sjá, einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði var fyrir, og var leiddur fyrir hann. Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.


Sálmur:

Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi. Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú. Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.


Síðari ritningarlestur:

Opinberun Jóhannesar

Náð sé með yður og friður frá honum, sem er og var og kemur, og frá öndunum sjö, sem eru frammi fyrir hásæti hans, og frá Jesú Kristi, sem er votturinn trúi, frumburður dauðra, höfðinginn yfir konungum jarðarinnar. Hann elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu. Og hann gjörði oss að konungsríki og prestum, Guði sínum og föður til handa. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen. Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum. Vissulega, amen. Ég er Alfa og Ómega, segir Drottinn Guð, hann sem er og var og kemur, hinn alvaldi.


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: “Ert þú konungur Gyðinga?” Jesús svaraði: “Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?” Pílatus svaraði: “Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?” Jesús svaraði: “Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.” Þá segir Pílatus við hann: “Þú ert þá konungur?” Jesús svaraði: “Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.”