Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
34. sunnudagur, ár A, Hátíð Krists Konungs


Fyrsti ritningarlestur:

Esekíel

Svo segir Drottinn Guð: Hér er ég sjálfur og mun leita sauða minna og annast þá. Eins og hirðir annast hjörð sína þann dag, sem hann er á meðal hinna tvístruðu sauða sinna, þannig mun ég annast sauði mína og heimta þá úr öllum þeim stöðum, þangað sem þeir hröktust í þokunni og dimmviðrinu. Ég mun sjálfur halda sauðum mínum til haga og sjálfur bæla þá, segir Drottinn Guð. Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika, en varðveita hið feita og sterka. Ég mun halda þeim til haga, eins og vera ber. En þér, sauðir mínir, - svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég dæmi milli kindar og kindar, milli hrúta og hafra.


Sálmur:

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.


Síðari ritningarlestur:

Fyrra bréf Páls til Korintumanna

En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru. Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann. Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist. En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra. Síðan kemur endirinn, er hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans. Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður. En þegar allt hefur verið lagt undir hann, þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.` Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?` Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.` Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.` Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?` Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.` Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs."