Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
33. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Orðskviðirnir

Væna konu, hver hlýtur hana? hún er miklu meira virði en perlur. Hjarta manns hennar treystir henni, og ekki vantar að honum fénist. Hún gjörir honum gott og ekkert illt alla ævidaga sína. Hún sér um ull og hör og vinnur fúslega með höndum sínum. Hún réttir út hendurnar eftir rokknum, og fingur hennar grípa snælduna. Hún breiðir út lófann móti hinum bágstadda og réttir út hendurnar móti hinum snauða. Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona, sem óttast Drottin, á hrós skilið.


Sálmur:

Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum. Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér. Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt. Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin. Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,


Síðari ritningarlestur:

Fyrra bréf Páls til Þessalóníkumanna

En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað. Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu. Þegar menn segja: "Friður og engin hætta", þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast. En þér, bræður, eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur. Þér eruð allir synir ljóssins og synir dagsins. Vér heyrum ekki nóttunni til né myrkrinu. Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ,Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.` Húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.` Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: ,Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær.` Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.` Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ,Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.` Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`