Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
32. sunnudagur, ár B


Fyrsti ritningarlestur:

Esekíel

Nú leiddi hann mig aftur að musterisdyrunum. Þá sá ég að vatn spratt upp undan þröskuldi hússins mót austri, því að framhlið musterisins vissi til austurs. Og vatnið rann niður undan suðurhlið musterisins, sunnanvert við altarið. Síðan leiddi hann mig út um norðurhliðið og fór með mig í kring að utanverðu að ytra hliðinu, sem snýr í austurátt. Þá sá ég að vatn vall upp undan suðurhliðinni. Þá sagði hann við mig: “Þetta vatn rennur út á austurhéraðið og þaðan ofan á sléttlendið, og þegar það fellur í Dauðahafið, í salt vatnið, verður vatnið í því heilnæmt. Og allar lifandi skepnur, allt sem hrærist, fær nýtt fjör alls staðar þar sem fljótið kemur, og fiskurinn mun verða mjög mikill, því að þegar þetta vatn kemur þangað, verður vatnið í því heilnæmt, og allt lifnar við, þar sem fljótið kemur. En meðfram fljótinu, á bökkunum beggja vegna, munu upp renna alls konar aldintré. Laufblöð þeirra munu ekki visna og ávextir þeirra ekki dvína. Á hverjum mánuði munu þau bera nýja ávöxtu, af því að vötnin, sem þau lifa við, koma frá helgidóminum. Og ávextir þeirra munu hafðir verða til matar og laufblöð þeirra til lyfja.”


Sálmur:

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins. Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta. Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi. Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.


Síðari ritningarlestur:

Fyrra bréf Páls til Korintumanna

Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús. Eftir þeirri náð, sem Guð hefur veitt mér, hef ég eins og vitur húsameistari lagt grundvöll, er annar byggir ofan á. En sérhver athugi, hvernig hann byggir. Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur. Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður? Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri.


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

Nú fóru páskar Gyðinga í hönd, og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá, er seldu naut, sauði og dúfur, og víxlarana, sem sátu þar. Þá gjörði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra, og við dúfnasalana sagði hann: “Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð.” Lærisveinum hans kom í hug, að ritað er: “Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.” Gyðingar sögðu þá við hann: “Hvaða tákn getur þú sýnt oss um það, að þú megir gjöra þetta?” Jesús svaraði þeim: “Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum.” Þá sögðu Gyðingar: “Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum, og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!” En hann var að tala um musteri líkama síns. Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans, að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu, sem Jesús hafði talað.