Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
31. sunnudagur, ár C
Fyrsti ritningarlestur:
Speki SalómonsAllur heimurinn er sem fis á vog fyrir þér, líkur daggardropa er fellur á jörðu að morgni. En þú miskunnar öllum, því að þú megnar allt og umberð syndir manna svo að þeir sjái að sér. Þú elskar allt, sem er til, og hefur ekki ímugust á neinu, sem þú hefur gjört, né skapaðir þú neitt, er þú gætir haft óbeit á. Hvernig fengi nokkuð staðist gegn vilja þínum eða varðveist ef þú hefðir ekki gefið því líf? Þú hlífir öllu, af því það er þitt, ó Drottinn, sem elskar allt sem lifir, því að óforgengilegur andi þinn er í öllu. Þess vegna hirtir þú þá sem hrasa með hófsemi og vandar um við þá sem verður á með áminningum svo að þeir hverfi frá vonskunni og trúi á þig Drottinn.
Sálmur:
Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi. Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi. Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar. Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig. Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu. Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum. Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
Síðari ritningarlestur:
Síðara bréf Páls til ÞessaloníkumannaÞess vegna biðjum vér og alla tíma fyrir yður, að Guð vor álíti yður maklega köllunarinnar og fullkomni allt hið góða, sem þér viljið og vinnið í trú og með krafti Guðs, svo að nafn Drottins vors Jesú verði dýrlegt í yður og þér í honum fyrir náð Guðs vors og Drottins Jesú Krists. En að því er snertir komu Drottins vors Jesú Krists og það, að vér söfnumst til hans, biðjum vér yður, bræður, að þér séuð ekki fljótir til að komast í uppnám eða láta hræða yður, hvorki af nokkrum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur Drottins væri þegar fyrir höndum.
Guðspjall:
LúkasarguðspjallJesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu. Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni. En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur. Jesús sagði þá við hann: Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.