Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
31. sunnudagur ár B
Fyrsti ritningarlestur:
Speki SalómonsEn sálir réttlátra eru í hendi Guðs og engin kvöl mun ná til þeirra. Í augum heimskingjanna eru þeir dánir. Brottför þeirra er talin ógæfa og viðskilnaður þeirra við oss tortíming en þeir eru í friði. Enda þótt þeim væri refsað að mati manna eiga þeir vissa von um ódauðleika. Eftir skammvinna hirtingu munu þeir njóta mikillar gæsku, því að Guð reyndi þá og fann að þeir voru honum maklegir. Eins og gull í deiglu reyndi hann þá og tók í mót þeim sem brennifórnargjöf. Á þeirri stundu er hann kemur og vitjar þeirra munu þeir upptendrast eins og neistaflug í hálmi. Þeir munu dæma þjóðirnar og drottna yfir lýðunum og Drottinn mun verða konungur þeirra að eilífu. Þeir sem treysta á hann munu þekkja sannleikann, og hinir trúu munu vera hjá honum í kærleika. Hann mun veita sínum heilögu náð og miskunn og vitja sinna útvöldu.
Sálmur:
Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast? Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans. Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér! Mér er hugsað til þín, er sagðir: Leitið auglitis míns! Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn. Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns. Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda! Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til RómverjaEn vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn. Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, - fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. - En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum. Þar sem vér nú erum réttlættir fyrir blóð hans, því fremur mun hann frelsa oss frá reiðinni. Því að ef vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir. Og ekki það eitt, heldur fögnum vér í Guði fyrir Drottin vorn Jesú Krist, sem vér nú höfum öðlast sáttargjörðina fyrir.
Guðspjall:
JóhannesarguðspjallÞegar Jesús kom, varð hann þess vís, að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni. Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm þaðan. Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn. Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima. Marta sagði við Jesú: Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um. Jesús segir við hana: Bróðir þinn mun upp rísa. Marta segir: Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi. Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu? Hún segir við hann: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.