Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
2. sunnudagur í páskum, ár B


Fyrsti ritningarlestur:

Postulasagan

En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt. Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti, og mikil náð var yfir þeim öllum. Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.


Sálmur:

Það mæli Ísrael: “Því að miskunn hans varir að eilífu!” Það mæli Arons ætt: “Því að miskunn hans varir að eilífu!” Það mæli þeir sem óttast Drottin: “Því að miskunn hans varir að eilífu!” Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið. Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis. Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki, Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini. Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum. Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.


Síðari ritningarlestur:

Fyrsta bréf Jóhannesar

Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur, og hver sem elskar föðurinn elskar einnig barn hans. Að vér elskum Guðs börn þekkjum vér af því, að vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans. Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung, því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn. Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs? Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn.


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: “Skrifaðu ekki ‘konungur Gyðinga’, heldur að hann hafi sagt: ‘Ég er konungur Gyðinga’.” Pílatus svaraði: “Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað.” Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: “Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann.” Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gjörðu hermennirnir. En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: “Kona, nú er hann sonur þinn.” Síðan sagði hann við lærisveininn: “Nú er hún móðir þín.” Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín. Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: “Mig þyrstir.” Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: “Það er fullkomnað.” Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann. Nú var aðfangadagur, og til þess að líkin væru ekki á krossunum hvíldardaginn, báðu Gyðingar Pílatus að láta brjóta fótleggi þeirra og taka líkin ofan, enda var mikil helgi þess hvíldardags.