Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
2. sunnudagur lönguföstu, ár A
Fyrsti ritningarlestur:
Fyrsta bók MóseDrottinn sagði við Abram: "Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á. Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera. Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta." Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran.
Sálmur:
Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð. Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins. En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans. Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri. Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur. Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
Síðari ritningarlestur:
Síðara bréf Páls til TímóteusarFyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til. Hann hefur frelsað oss og kallað heilagri köllun, ekki eftir verkum vorum, heldur eftir eigin ákvörðun og náð, sem oss var gefin fyrir Krist Jesú frá eilífum tímum, en hefur nú birst við komu frelsara vors Krists Jesú. Hann afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.
Guðspjall:
MatteusarguðspjallEftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: "Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina." Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!" Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: "Rísið upp, og óttist ekki." En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: "Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum."