Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
2. sunnudagur í aðventu, ár C
Fyrsti ritningarlestur:
BarúksbókAfklæð þig, Jerúsalem, hryggðar og hörmungarskikkju þinni, íklæðstu skarti Guðs dýrðar að eilífu. Sveipa þig möttli réttlætis Guðs, set motur dýrðar hins Eilífa á höfuð þér. Guð mun sýna sérhverri þjóð á jörðu vegsemd þín, því að Guð mun veita þér að eilífu nafnið: Friður vegna réttlætis, dýrð sakir guðrækni. Rís upp, Jerúsalem, tak þér stöðu á hæðinni, hef upp augu þín og horfðu í austur. Lít börn þín sem safnað var saman að boði hins Heilaga, þau koma úr vestri og austri, fagnandi yfir að Guð minntist þeirra. Fótgangandi fóru þau frá þér, leidd burt af óvinum. En Guð færir þau aftur til þín, og munu þau borin í vegsemd líkt og í hásæti. Því að Guð hefur boðið að hvert hátt fjall skuli lækka, eilífar hæðir jafnast og dalirnir fyllast og verða að jafnsléttu, svo að Ísrael megi ganga fram í skjóli dýrðar Guðs. Að boði Guðs munu skógar og öll ilmandi tré veita Ísrael skugga. Með ljósi dýrðar sinnar og með miskunn sinni og réttlæti mun Guð leiða Ísrael fagnandi heim.
Sálmur:
Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi. Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá. Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir. Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu. Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng. Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til FilippímannaÉg þakka Guði mínum í hvert skipti, sem ég hugsa til yðar, og gjöri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir yður öllum, vegna samfélags yðar um fagnaðarerindið frá hinum fyrsta degi til þessa. Og ég fulltreysti einmitt því, að hann, sem byrjaði í yður góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists. Guð er mér þess vitni, hvernig ég þrái yður alla með ástúð Krists Jesú. Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind, svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists, auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði.
Guðspjall:
LúkasarguðspjallÁ fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda, eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans. Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur. Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs.