Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
29. sunnudagur, ár B


Fyrsti ritningarlestur:

Jesaja

En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða. Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast. Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti, þjónn minn, gjöra marga réttláta, og hann mun bera misgjörðir þeirra.


Sálmur:

Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð. Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins. En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans. Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri. Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur. Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.


Síðari ritningarlestur:

Bréfið til Hebrea

Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna. Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.


Guðspjall:

Markúsarguðspjall

Þá komu til hans Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: “Meistari, okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.” Hann spurði þá: “Hvað viljið þið, að ég gjöri fyrir ykkur?” Þeir svöruðu: “Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.” Jesús sagði við þá: “Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn, sem ég skírist?” Þeir sögðu við hann: “Það getum við.” Jesús mælti: “Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið.” Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: “Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.”