Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
28. sunnudagur, ár B
Fyrsti ritningarlestur:
Speki SalómonsÞess vegna bað ég Guð og hann gaf mér hyggindi. Ég ákallaði Guð og andi spekinnar kom til mín. Ég mat spekina meir en veldissprota og hásæti. Ég hafði auðæfi að engu í samanburði við hana. Enginn ómetanlegur eðalsteinn komst í samjöfnuð við hana því að allt gull er hjá henni sem sandkorn og silfur telst leir borið saman við hana. Ég unni henni meir en heilbrigði og fegurð og mat hana meir en dagsins ljós því að skin hennar dvín aldrei. Öll gæði komu til mín með henni og óteljandi auðæfi voru í höndum hennar.
Sálmur:
Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína? Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora. Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt. Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra. Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
Síðari ritningarlestur:
Bréfið til HebreaÞví að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans. Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.
Guðspjall:
MarkúsarguðspjallÞegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf? Jesús sagði við hann: Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður. Hinn svaraði honum: Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku. Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér. En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki. Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki. En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: Hver getur þá orðið hólpinn? Jesús horfði á þá og sagði: Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt. Þá sagði Pétur við hann: Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Jesús sagði: Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.