Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
27. sunnudagur, ár B


Fyrsti ritningarlestur:

Fyrsta bók Móse

Drottinn Guð sagði: “Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.” Þá myndaði Drottinn Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra. Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. En meðhjálp fyrir mann fann hann enga við sitt hæfi. Þá lét Drottinn Guð fastan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður, tók hann eitt af rifjum hans og fyllti aftur með holdi. Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins. Þá sagði maðurinn: “Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin.” Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.


Sálmur:

Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum. Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér. Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt. Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin. Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína, og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!


Síðari ritningarlestur:

Bréfið til Hebrea

En vér sjáum, að Jesús, sem “skamma stund var gjörður englunum lægri,” er “krýndur vegsemd og heiðri” vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla. Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis. Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður,


Guðspjall:

Markúsarguðspjall

Farísear komu og spurðu hann, hvort maður mætti skilja við konu sína. Þeir vildu freista hans. Hann svaraði þeim: “Hvað hefur Móse boðið yður?” Þeir sögðu: “Móse leyfði að ‘rita skilnaðarbréf og skilja við hana.’” Jesús mælti þá til þeirra: “Vegna harðúðar hjartna yðar ritaði hann yður þetta boðorð, en frá upphafi sköpunar ‘gjörði Guð þau karl og konu. Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.’ Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.” Þegar lærisveinarnir voru komnir inn, spurðu þeir hann aftur um þetta. En hann sagði við þá: “Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni. Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór.” Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: “Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.” Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.