Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
27. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Jesaja

Ég vil kveða kvæði um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans. Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð. Hann stakk upp garðinn og tíndi grjótið úr honum, hann gróðursetti gæðavínvið í honum, reisti turn í honum miðjum og hjó þar einnig út vínlagarþró, og hann vonaði að garðurinn mundi bera vínber, en hann bar muðlinga. Dæmið nú, þér Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns! Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann? Hví bar hann muðlinga, þegar ég vonaði að hann mundi bera vínber? En nú vil ég kunngjöra yður, hvað ég ætla að gjöra við víngarð minn: Rífa þyrnigerðið, svo að hann verði etinn upp, brjóta niður múrvegginn, svo að hann verði troðinn niður. Og ég vil gjöra hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar, og skýjunum vil ég um bjóða, að þau láti enga regnskúr yfir hann drjúpa. Víngarður Drottins allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans. Hann vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein.


Sálmur:

Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann, Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins. Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin? Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann. Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa. þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt. Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Filippímanna

Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn. En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja. Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá. Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: "Þeir munu virða son minn. Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.` Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?" Þeir svara: "Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma." Og Jesús segir við þá: "Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum. Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. [