Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
26. sunnudagur, ár C


Fyrsti ritningarlestur:

Amos

Vei hinum andvaralausu á Síon og hinum öruggu á Samaríufjalli, aðalsmönnum hinnar ágætustu meðal þjóðanna, og þeim, er Ísraels hús streymir til. Þeir hvíla á legubekkjum af fílsbeini og liggja flatir á hvílbeðjum sínum. Þeir eta lömb af sauðahjörðinni og ungneyti úr alistíunni. Þeir raula undir með hörpunni, setja saman ljóð eins og Davíð. Þeir drekka vínið úr skálum og smyrja sig með úrvals-olíu - en eyðing Jósefs rennur þeim ekki til rifja. Fyrir því skulu þeir nú herleiddir verða í fararbroddi hinna herleiddu, og þá skal fagnaðaróp flatmagandi sælkeranna þagna.


Sálmur:

Drottinn leysir hina bundnu, Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta. Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar. Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.


Síðari ritningarlestur:

Fyrra bréf Páls til Tímóteusar

En þú, Guðs maður, forðast þú þetta, en stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta. Ég býð þér fyrir augliti Guðs, sem veitir öllu líf, og fyrir augliti Krists Jesú, er gjörði góðu játninguna frammi fyrir Pontíusi Pílatusi: Gæt þú boðorðsins lýtalaust, óaðfinnanlega allt til endurkomu Drottins vors Jesú Krists, sem hinn blessaði og eini alvaldur mun á sínum tíma birtast láta, konungur konunganna og Drottinn drottnanna. Hann einn hefur ódauðleika, hann býr í ljósi, sem enginn fær til komist, hann sem enginn maður leit né litið getur. Honum sé heiður og eilífur máttur. Amen.


Guðspjall:

Lúkasarguðspjall

Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: ‘Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.’ Abraham sagði: ‘Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.’ En hann sagði: ‘Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.’ En Abraham segir: ‘Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.’ Hinn svaraði: ‘Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.’ En Abraham sagði við hann: ‘Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum.”’