Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
26. sunnudagur, ár B


Fyrsti ritningarlestur:

Fjórða bók Móse

Og Drottinn sté niður í skýinu og talaði við hann, og hann tók af anda þeim, sem yfir honum var, og lagði hann yfir öldungana sjötíu. Og er andinn kom yfir þá, spáðu þeir, og aldrei síðan. Tveir menn höfðu orðið eftir í herbúðunum. Hét annar Eldad, en hinn Medad, og andinn kom yfir þá - voru þeir meðal hinna skráðu, en höfðu ekki gengið út að tjaldinu - og þeir spáðu í herbúðunum. Þá kom ungmenni hlaupandi og sagði Móse og mælti: “Eldad og Medad eru að spá í herbúðunum!” Jósúa Núnsson, er þjónað hafði Móse frá æsku, svaraði og sagði: “Móse, herra minn, bannaðu þeim það!” En Móse sagði við hann: “Tekur þú upp þykkjuna fyrir mig? Ég vildi að allur lýður Drottins væri spámenn, svo að Drottinn legði anda sinn yfir þá.”


Sálmur:

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran. Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát. Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér. En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum! Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.


Síðari ritningarlestur:

Hið almenna bréf Jakobs

Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma. Auður yðar er orðinn fúinn og klæði yðar eru orðin möletin, gull yðar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða yður til vitnis og eta hold yðar eins og eldur. Þér hafið fjársjóðum safnað á síðustu dögunum. Launin hrópa, þau sem þér hafið haft af verkamönnunum, sem slógu lönd yðar, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna. Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi. Þér hafið sakfellt og drepið hinn réttláta. Hann veitir yður ekki viðnám.


Guðspjall:

Markúsarguðspjall

Jóhannes sagði við hann: “Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgdi oss ekki.” Jesús sagði: “Varnið honum þess ekki, því að enginn er sá, að hann gjöri kraftaverk í mínu nafni og geti þegar á eftir talað illa um mig. Sá sem er ekki á móti oss, er með oss. Hver sem gefur yður bikar vatns að drekka, vegna þess að þér eruð Krists, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum. Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn. Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld. Ef fótur þinn tælir þig til falls, þá sníð hann af. Betra er þér höltum inn að ganga til lífsins en hafa báða fætur og verða kastað í helvíti. Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti, þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.”