Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
25. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Jesaja

Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur! Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins, þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega. Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir - segir Drottinn. Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.


Sálmur:

Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi. Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur. Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar. Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum. Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Filippímanna

Og það er einlæg löngun mín og von, að ég í engu megi til skammar verða, heldur að Kristur megi í allra augum, nú eins og ávallt, vegsamlegur verða í mér, hvort sem það verður með lífi mínu eða dauða. Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Veit ég eigi hvort ég á heldur að kjósa. Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi, því að það væri miklu betra. En yðar vegna er það nauðsynlegra, að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. En hvað sem öðru líður, þá hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Hvort sem ég kem og heimsæki yður eða ég er fjarverandi, skal ég fá að heyra um yður, að þér standið stöðugir í einum anda og berjist saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun.` Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: ,Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn?` Þeir svara: ,Enginn hefur ráðið oss.` Hann segir við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn.` Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: ,Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu.` Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: ,Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.` Hann sagði þá við einn þeirra: ,Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?` Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir."