Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
24. sunnudagur, ár C
Fyrsti ritningarlestur:
Önnur bók MóseÞá sagði Drottinn við Móse: Far þú og stíg ofan, því að fólk þitt, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefir misgjört. Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim. Þeir hafa gjört sér steyptan kálf, og þeir hafa fallið fram fyrir honum, fært honum fórnir og sagt: Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi. Drottinn sagði við Móse: Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk. Lát mig nú einan, svo að reiði mín upptendrist í gegn þeim og tortími þeim. Síðan vil ég gjöra þig að mikilli þjóð. En Móse reyndi að blíðka Drottin, Guð sinn, og sagði: Hví skal, Drottinn, reiði þín upptendrast í gegn fólki þínu, sem þú leiddir út af Egyptalandi með miklum mætti og voldugri hendi? Minnst þú þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Ísraels, sem þú hefir svarið við sjálfan þig og heitið: Ég vil gjöra niðja yðar marga sem stjörnur himinsins, og allt þetta land, sem ég hefi talað um, vil ég gefa niðjum yðar, og skulu þeir eiga það ævinlega. Þá iðraðist Drottinn hins illa, er hann hafði hótað að gjöra fólki sínu.
Sálmur:
Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi. Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni, Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér. Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt! Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.
Síðari ritningarlestur:
Fyrra bréf Páls til TímóteusarÉg þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði. Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú. Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur. En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs. Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.
Guðspjall:
LúkasarguðspjallAllir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann, en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim. En hann sagði þeim þessa dæmisögu: Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var. Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf. Eða kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.
Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun. Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum. En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum. Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.
En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag. En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim. Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.