Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
24. sunnudagur ár B, Upphafning hins Heilaga Kross.


Fyrsti ritningarlestur:

Fjórða bók Móse

Lögðu þeir þá upp frá Hórfjalli leiðina til Rauðahafs til þess að fara í kringum Edómland. En lýðnum féllst hugur á leiðinni. Og lýðurinn talaði í gegn Guði og í gegn Móse: “Hví leidduð þið oss brott af Egyptalandi, til þess að vér dæjum í eyðimörkinni. Hér er hvorki brauð né vatn, og vér erum orðnir leiðir á þessu léttmeti.” Þá sendi Drottinn eitraða höggorma meðal lýðsins, og þeir bitu fólkið, svo að margt manna dó af Ísrael. Þá gekk lýðurinn til Móse og sagði: “Vér höfum syndgað, því að vér höfum talað í gegn Drottni og í gegn þér. Bið þú til Drottins, að hann taki höggormana frá oss.” Móse bað þá fyrir lýðnum. Og Drottinn sagði við Móse: “Gjör þér eiturorm og set hann á stöng, og það skal verða, að hver sem bitinn er og lítur á hann, skal lífi halda.” Móse gjörði höggorm af eiri og setti á stöng. Og það varð, að ef höggormur hafði bitið einhvern og hann leit til eirormsins, þá hélt hann lífi.


Sálmur:

Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns. Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum. Þegar hann deyddi þá, leituðu þeir hans, sneru sér og spurðu eftir Guði og minntust þess, að Guð var klettur þeirra og Guð hinn hæsti frelsari þeirra. Þeir beittu við hann fagurgala með munni sínum og lugu að honum með tungum sínum. En hjarta þeirra var eigi stöðugt gagnvart honum, og þeir voru eigi trúir sáttmála hans. En hann er miskunnsamur, hann fyrirgefur misgjörðir og tortímir eigi, hann stillir reiði sína hvað eftir annað og hleypir eigi fram allri bræði sinni.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Filippímanna

Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.


Guðspjall:

Jóhannesarguðspjall

Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn. Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn, svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum. Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.