Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
23. sunnudagur, ár B


Fyrsti ritningarlestur:

Jesaja

Segið hinum ístöðulausu: “Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður.” Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum. Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.


Sálmur:

Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn, sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu, Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta. Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar. Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.


Síðari ritningarlestur:

Hið almenna bréf Jakobs

Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist. Nú kemur maður inn í samkundu yðar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum, og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum, ef öll athygli yðar beinist að þeim, sem skartklæðin ber, og þér segið: “Settu þig hérna í gott sæti!” en segið við fátæka manninn: “Stattu þarna, eða settu þig á gólfið við fótskör mína!” hafið þér þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum? Heyrið, bræður mínir elskaðir! Hefur Guð ekki útvalið þá, sem fátækir eru í augum heimsins, til þess að þeir verði auðugir í trú og erfingjar þess ríkis, er hann hefur heitið þeim, sem elska hann?


Guðspjall:

Markúsarguðspjall

Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: “Effaþa,” það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust næsta mjög og sögðu: “Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.”