Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
23. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Esekíel

Þig, mannsson, hefi ég skipað varðmann fyrir Ísraels hús, til þess að þú varir þá við fyrir mína hönd, er þú heyrir orð af munni mínum. Þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú hinn óguðlegi skalt deyja!` og þú segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við breytni hans, þá skal að vísu hinn óguðlegi deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans vil ég krefja af þinni hendi. En hafir þú varað hinn óguðlega við breytni hans, að hann skuli láta af henni, en hann lætur samt ekki af breytni sinni, þá skal hann deyja fyrir misgjörð sína, en þú hefir frelsað líf þitt.


Sálmur:

Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors. Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum. Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum, því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans! Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni, þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Rómverja

Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: "Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast," og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig." Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Ef bróðir þinn syndgar [gegn þér], skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ,hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.` Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður. Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni. Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra."