Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
22. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Jeremía

Þú hefir tælt mig, Drottinn, og ég lét tælast! Þú tókst mig tökum og barst hærra hlut. Ég er orðinn að stöðugu athlægi, allir gjöra gys að mér. Já, í hvert sinn er ég tala, verð ég að kvarta undan ofbeldi og kúgun, því að orð Drottins hefir orðið mér til stöðugrar háðungar og spotts. Ef ég hugsaði: "Ég skal ekki minnast hans og eigi framar tala í hans nafni," þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.


Sálmur:

Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi. Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð, því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig. Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni. Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn, Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég. Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Rómverja

Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Upp frá þessu tók Jesús að sýna lærisveinum sínum fram á, að hann ætti að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: "Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma." Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: "Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er." Þá mælti Jesús við lærisveina sína: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína? Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans.