Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
21. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Jesaja

Ég hrindi þér úr stöðu þinni, og úr embætti þínu skal þér steypt verða. En á þeim degi mun ég kalla þjón minn, Eljakím Hilkíason. Ég færi hann í kyrtil þinn og gyrði hann belti þínu og fæ honum í hendur vald þitt. Hann skal verða faðir Jerúsalembúa og Júdaniðja. Og lykilinn að húsi Davíðs legg ég á herðar honum. Þegar hann lýkur upp, skal enginn læsa; þegar hann læsir, skal enginn upp ljúka. Ég rek hann eins og nagla á haldgóðan stað, og hann skal verða veglegt hásæti fyrir hús föður síns.


Sálmur:

Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum. Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru. Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér. Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska. Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Rómverja

Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans! Hver hefur þekkt huga Drottins? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans? Hver hefur að fyrra bragði gefið honum, svo að það eigi að verða honum endurgoldið? Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: "Hvern segja menn Mannssoninn vera?" Þeir svöruðu: "Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum." Hann spyr: "En þér, hvern segið þér mig vera?" Símon Pétur svarar: "Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs." Þá segir Jesús við hann: "Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum." Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum, að hann væri Kristur.