Stella Maris

Maríukirkja

Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
20. sunnudagur, ár A


Fyrsti ritningarlestur:

Jesaja

Svo segir Drottinn: Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, því að hjálpræði mitt er í nánd og réttlæti mitt birtist bráðlega. Og útlendinga, sem gengið hafa Drottni á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn Drottins, til þess að verða þjónar hans - alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála, þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu. Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir.


Sálmur:

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða. Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa. Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.


Síðari ritningarlestur:

Bréf Páls til Rómverja

En við yður, þér heiðingjar, segi ég: Að því leyti sem ég er postuli heiðingja, vegsama ég þjónustu mína. Ég gæti ef til vill vakið afbrýði hjá ættmönnum mínum og frelsað einhverja þeirra. Því ef það varð sáttargjörð fyrir heiminn, að þeim var hafnað, hvað verður þá upptaka þeirra annað en líf af dauðum? Guð iðrar ekki náðargjafa sinna og köllunar. Þér voruð fyrrum óhlýðnir Guði, en hafið nú hlotið miskunn vegna óhlýðni þeirra. Þannig hafa þeir nú líka orðið óhlýðnir, til þess að einnig þeim mætti miskunnað verða fyrir miskunn þá, sem yður er veitt. Guð hefur gefið alla óhlýðninni á vald, til þess að hann geti miskunnað öllum.


Guðspjall:

Matteusarguðspjall

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda." En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum." Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt." Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!" Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana." Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra." Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.