Ritningarlestrar fyrir Sunnudagsmessu
1. sunnudagur lönguföstu, ár C
Fyrsti ritningarlestur:
Fimmta bók MóseOg presturinn skal taka körfuna af hendi þér og setja hana niður fyrir framan altari Drottins Guðs þíns. Þá skalt þú taka til máls og segja frammi fyrir Drottni Guði þínum: Faðir minn var umreikandi Aramei, og hann fór suður til Egyptalands fáliðaður og dvaldist þar sem útlendingur og varð þar að mikilli, sterkri og fjölmennri þjóð. En Egyptar fóru illa með oss og þjáðu oss og lögðu á oss þunga þrælavinnu. Þá hrópuðum vér til Drottins, Guðs feðra vorra, og Drottinn heyrði raust vora og sá eymd vora, þraut og ánauð. Og Drottinn flutti oss af Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum armlegg, með mikilli skelfingu og með táknum og undrum. Og hann leiddi oss hingað og gaf oss þetta land, land, sem flýtur í mjólk og hunangi. Og nú færi ég hér frumgróðann af ávexti landsins, þess er þú, Drottinn, hefir gefið mér. Því næst skalt þú setja það niður frammi fyrir Drottni Guði þínum og falla fram fyrir Drottni Guði þínum.
Sálmur:
Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka, sá er segir við Drottin: Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á! Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt. Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini. Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka. Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt. Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.
Síðari ritningarlestur:
Bréf Páls til RómverjaHvað segir það svo? Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu. Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum. Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn - og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða. Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann; því að hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða.
Guðspjall:
LúkasarguðspjallEn Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður. En djöfullinn sagði við hann: Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði. Og Jesús svaraði honum: Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði. Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar. Og djöfullinn sagði við hann: Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil. Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt. Jesús svaraði honum: Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum. Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins og sagði við hann: Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan, því að ritað er: Hann mun fela englum sínum að gæta þín og: þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini. Jesús svaraði honum: Sagt hefur verið: Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns. Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni.